https://open.spotify.com/playlist/27DQcKLLnaicIayczyv6fj?si=6N4ygOOOQxWWeGFg-MbFDQ&pi=e-hSqq3UBZRRSV Risaeðlulagið | Krakkakunst
top of page

Risaeðlulagið

Risaeðlulagið er lag um fjórar tegundir risaeðlna. Fyrst er sungið um langháls, því næst grameðla, svo flugeðla og að lokum kambeðla. 

Í viðlaginu er opnað fyrir lærdómstækifæri á því hvers vegna risaeðlunar urðu útrýmdar. 

Langháls

Grameðla

Flugeðla

Kambeðla

Risaeðlulagið
Fræðilegar pælingar

Risaeðlulagið er í raun byrjunin á þessu verkefni. Forsagan er sú að það var pólskur drengur á deildinni hjá mér. Hann var þriggja ára á þeim tíma. Hann var lítill gaur sem elskaði ofurhetjur og risaeðlur. Það var greinilegt að hann hafði ekki mikinn áhuga á því að syngja og fannst ekki gaman í þeim stundum þegar sungið var hvað mest. Hann þrábað mig um að syngja risaeðlulag í samverustund. Ég kunni ekkert slíkt og hvernig sem ég leitaði fann ég ekkert sem mér fannst henta. Því settist ég niður og samdi risaeðlulagið. Frá fyrstu stundu náði ég að fanga athygli drengsins. Það sem gerðist svo í kjölfarið var að hann fór að hafa gaman af söngstundum, fór að syngja með, læra lög og aðra söngtexta, þótt að risaeðlulagið hafi áfram verið uppáhaldslagið. Það mikilvægasta var að þarna var komið kennsluefni sem byggði á áhugasviði barnanna sem gerði þeim kleift að ræða um textann, spyrja spurninga og í kjölfarið jókst orðaforði drengsins og einnig allra hinna barnanna á deildinni samtímis. Ég hugsaði strax með mér hversu öflugt kennsluefni lagið var og þar með fæddist hugmyndin um að nýta lög sem kennsluefni fyrir ísl2 börn.

Þegar textinn var saminn var hugsunin að hann væri auðskilinn, sjónrænn, eins rétt upp settur setningarfræðilega og hægt var, nóg af upphrópunum svo öll börn geti verið virkir þátttakendur í stundinni sjálfri og að lokum var mikilvægt að textinn væri fullur af húmor til að ná til barnanna.

Þar sem orðaforði er kjarni tungumálsins og grunnur að öllu námi framtíðarinnar er í raun mikilvægt að allt það sem leikskólakennarar gera inni á leikskóladeild taki mið af því að börnin læri íslensk orð. Í laginu er þess gætt að textinn sé auðskilinn. Það er til þess að börnin öðlist sameiginlegan grundvöll til jafningjasamskipta byggðan á sameiginlegri þekkingu og áhuga. Hjördís Hafsteinsdóttir og félagar (2022) taka fram að jafningjasamskipti séu mikilvæg fyrir ung börn til að ná tökum á tungumálinu. Þar sem risaeðlur eru vinsælt viðfangsefni ungra barna og mörg þeirra heillast af þeim getur verið mikilvægt að gefa ísl2 börnum tækifæri til þess að geta tjáð sig um risaeðlur á íslensku við félaga sína sem leiðir oftar en ekki til áframhaldandi samskipta. Það getur gefið þeim tækifæri til samskipta og að byggja upp vinasambönd við önnur börn sem getur verið lykilþáttur í íslenskri máltöku barnanna.

Þegar textinn var saminn var sérstaklega reynt að koma inn orðum úr bókinni Tíðni orða í tali barna, en í þessu lagi var sérstaklega unnið með orð sem hafa hljóðin [ð] og [þ] þar sem það eru hljóð sem pólsk börn eiga oft í vandræðum með að bera fram. Eins og fram hefur komið geta pólsk börn átt erfitt með framburð á t.d. [ð], [þ], [ɛ], [ɣ] og [ɪ] hljóðum. Það er þó ekki einungis einstök hljóð sem geta reynst erfið heldur er það framburður almennt sem getur vafist fyrir þeim og er námsefnið vel til þess fallið að þjálfa framburð, máláherslur og hrynjanda málsins. (Dorota Albo Artur Rajter, munnleg heimild, 20.mars 2023; Edda Rún Knútsdóttir og fleiri 2008).

Hér er hægt að nálgast tvö PDF skjöl.  
Fyrsta skjalið er með myndum. Myndirnar eru hugsaðar svo hægt sé að setja lagið upp á sjónrænan hátt í söngstundum. Stuttar útskýringar eru við hverja mynd, en hver og einn kennari á samt að setja sinn svip á söngstundina. 
Hitt skjalið er textinn og gítargrip sem er myndskreytt til að styðja við texta lagsins.
bottom of page